140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

314. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Með þessu frumvarpi voru lagðar til breytingar til samræmis við breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands þar sem kveðið er á um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta með forsetaúrskurði í stað laga. Samhliða breytingunni voru fagheiti ráðherra og ráðuneyta felld úr lögum og vísað til málaflokka. Með frumvarpinu er þess vegna lagt til að fagheiti ráðherra og ráðuneyta í lögum sem samþykkt voru eftir þá breytingu verði lagfærð, sem sagt að í stað fagheita ráðuneyta komi einungis ráðherra.

Við leggjum til eina breytingu og hún er að í stað orðanna ,,154. gr. laganna“ í b-lið 6. gr. komi: 155. gr. laganna. Það er vegna þess að í millitíðinni, frá því að þetta frumvarp var gert, hefur verið gerð breyting á vatnalögum.

Fimm fundarmenn af sex sem viðstaddir voru á fundinum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skrifa undir þetta nefndarálit, Vigdís Hauksdóttir skrifar ekki undir.