140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

skilgreining á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda.

196. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Tillagan sem hér um ræðir fjallar um að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að standa fyrir skilgreiningu, í samstarfi við Færeyjar og Grænland, á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi þeirra breytinga sem hlýnandi loftslag hefur haft í för með sér fyrir norðurskautið og alþjóðakerfið allt á undanförnum áratugum, eins og fram kemur í formála tillögunnar. Ráðstefna verði haldin á vegum utanríkisráðuneyta landanna með þátttöku stjórnmálamanna og sérfræðinga til að ræða og vinna að samkomulagi um sameiginlega stefnu landanna gagnvart þessum breytingum.

Tillaga þessi hefur fengið umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd en þar segir í nefndaráliti að meiri hlutinn árétti að skilgreiningin skuli standa í samhengi við loftslagsbreytingar og varða sameiginlega hagsmuni í ljósi breytinga á stöðu norðurslóða. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að umræða um skilgreiningu í þá veru hafi síðustu árin verið uppi innan Norðurlandaráðs og Vestur-Norðurlandanna. Meiri hlutinn telur að utanríkisráðuneytið muni geta beitt sér fyrir ráðstefnuhaldinu með ráðdeild og hagsýni að leiðarljósi, ekki síst ef ráðstefnan verður haldin á vegum landanna þriggja, eins og tillagan gerir ráð fyrir.

Hér er sem sé gerð tillaga um að halda ráðstefnu til að fjalla um þessi mjög svo brýnu mál er varða hlýnun loftslags á norðurslóðum og snúa því að hagsmunum þessara þriggja landa, Grænlands, Íslands og Færeyja, í mjög ríkum mæli.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Að henni standa sá sem hér stendur, Sigmundur Ernir Rúnarsson, og hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ásmundur Einar Daðason og Auður Lilja Erlingsdóttir.

Rétt er að taka það fram að hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Að svo mæltu, frú forseti, legg ég til að tillagan verði samþykkt að fengnu áliti hv. utanríkismálanefndar.