140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

ráðstefna um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna.

200. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Tillagan sem hér um ræðir fjallar um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna og möguleika til að auka tónlistarmenntun til hagsbóta fyrir vestnorrænu löndin, en tónlistarhefð í þessum löndum er sem kunnugt er mikil og gömul og er rétt að leggja rækt við hana með öllum tiltækum ráðum, tillagan gengur einmitt út á það.

Er þar sagt að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að halda ráðstefnu í samvinnu við Færeyjar og Grænland um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna með þátttöku tónlistarmanna og hagsmunaaðila. Tilgangurinn með ráðstefnunni verði annars vegar að lýsa tónlistarhefðum landanna þriggja og hins vegar að varpa ljósi á hvaða möguleika löndin þrjú hafi til að þróa tónlistarhefðir sínar og ekki síst viðhalda þeim.

Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fólk sem starfað hefur með vestnorrænu þingmannanefndinni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt og gerði það á fundi 24. ágúst 2011.

Undir tillöguna skrifa hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason og Auður Lilja Erlingsdóttir.

Er rétt að taka fram að hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ekki var pólitískur ágreiningur um málið í hv. utanríkismálanefnd og leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt óbreytt.