140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætlar mér að svara á tveim mínútum spurningum um stöðuna í öllum stóru og helstu málum ríkisstjórnarinnar. Það er til mikils ætlast en ég skal gera mitt besta. (Gripið fram í.)

Rammaáætlunin hefur verið í vinnslu og undirbúningi. Hún hefur verið á forræði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um nokkurn tíma þar sem verkefni þeirra hefur verið að fara yfir fjölda umsagna sem hafa borist um rammaáætlun. Þær spurnir sem ég hef haft af þeirri vinnu eru að hún verði tilbúin á allra næstu dögum og þá fer hún væntanlega sitt hefðbundna ferli inn í ríkisstjórn, inn í þingflokka og síðan inn í þing og verður vonandi samþykkt á vorþingi. Það er ekki eins og hv. þingmaður hélt fram verið að binda hendur stjórnarliða að einu eða neinu leyti í þessu máli, en vonandi næst sem víðtækust sátt meðal stjórnarliða engu að síður um þetta mikilvæga og stóra mál.

Varðandi fiskveiðistjórnarmálið hefur verið unnið að því af kappi hjá núverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Þetta hefur verið forgangsmál hjá honum og hann ætlaði sér að leggja það fram eins fljótt og auðið væri. Þær spurnir hef ég af því, eftir samtöl við hann, að eitthvað muni það dragast. Hann er í samráði við ýmsa aðila um þetta mál en vonandi kemst það það fljótt inn í þingið að við getum afgreitt það á þessu vorþingi. Það er mjög mikilvægt og er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar.

Varðandi skuldavanda heimilanna ræðum við hann síðar í dag og þar mun ég koma inn á þá fyrirspurn sem hv. þingmaður er með. Það er ýmislegt á borðum ríkisstjórnarinnar sem hún er að skoða í því efni.

Stjórnarskráin er líka mikilvægt mál sem var rætt í gær og ég vona að hún fari í það ferli sem var rætt í gær, að það fari nú til stjórnlagaráðs (Gripið fram í: Ekki …) (Forseti hringir.) og fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér var rætt í gær. Þetta eru allt stór og mikil mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að nái fram að ganga.