140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[10:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í þingmálaskrá sem kom fram í janúar sagði að rammaáætlunin mundi koma fram í þinginu fyrir lok janúarmánaðar. Ég verð að lýsa mikilli furðu á því að stjórnarflokkarnir hyggist nú reyna að ná einhvers konar samkomulagi sín á milli um þetta mál sem hefur verið í faglegum farvegi allan þennan tíma, í á annan áratug. Það sendir þá þau skilaboð um rammaáætlunina til framtíðar að það muni sem sagt ráðast af því hver fari með meiri hlutann á þinginu hverju sinni hvernig rammaáætlunin lítur út. Þá er þess væntanlega að vænta að eftir því sem meiri hlutinn á þinginu breytist muni rammaáætlunin taka breytingum. Þar með er rammaáætlunin ekki lengur faglegt skjal, heldur pólitískt. Er virkilega vilji forsætisráðherra að það verði þannig?

Ég verð að segja um stjórnarskrárumræðuna og allt það sem sagt var í þingsal í gær að ég stend við hvert einasta orð sem ég sagði þá og hef fengið ærið tilefni til að ítreka þau í millitíðinni. Nú skilst mér að fyrir liggi að sjálfur formaður stjórnlagaráðsins muni ekki geta tekið þátt í vinnunni og það hafi legið fyrir fyrir fram, (Forseti hringir.) áður en atkvæðagreiðsla fór fram í þinginu, en það var ekki upplýst, hvorki í nefndinni né í þingsal. Þetta er með ólíkindum.