140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Rammaáætlunin hefur tekið lengri tíma en við vonuðumst til, að við gætum komið henni til þings í febrúar. (Gripið fram í: Pólitísk hrossakaup.) Það er unnið eftir lögbundnu ferli og verið er að vinna úr þeim umsögnum sem bárust, á þriðja hundrað umsögnum. Það hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Það eru engin pólitísk hrossakaup eins og hér er kallað utan úr sal (Gripið fram í: Nei, nei.) og ég vil segja það við hv. þm. Bjarna Benediktsson eins og hann lýsti þessu ferli, að hér yrði farið að „víla og díla“ með hluti nú og síðar að því er varðar rammaáætlun, að ég vonast til að það verði ekki. Við erum að reyna að halda á málum með þeim hætti að það verði ekki. Þetta á að vera í faglegum farvegi (Gripið fram í.) og það er það sem skiptir máli fyrir rammaáætlun, að hún sé í faglegum farvegi. (Gripið fram í.) Fagleg sjónarmið verða að ráða um nýtingu og framkvæmdir. (JónG: Hjá Svandísi Svavarsdóttur?)