140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

húsnæðismál Náttúrugripasafns Íslands.

[10:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur vill spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í mjög sérhæft málefni sem snýr að húsnæðismálum Náttúrugripasafns Íslands. Núna er Náttúrugripasafn Íslands í kössum og það er ekkert aðgengi að þeim munum sem safnið býr yfir. Það er í gömlu Loftskeytastöðinni við háskólann, það er til skammar að hafa það þar og við erum öll sammála um það og því þarf að finna safninu framtíðarhúsnæði.

Nokkrir staðir hafa helst verið ræddir í því sambandi. Það hefur eitthvað verið rætt um Urriðaholt, þó ekki mikið. Síðan hefur verið rætt um Perluna og ég spyr hér sérstaklega um annan stað sem er safn úti á Seltjarnarnesi við hlið Nesstofu, svokallað Lækningaminjasafn. Menntamálaráðuneytið hefur komið að því safni með samningi.

Bæði Perlan og Lækningaminjasafnið úti á Seltjarnarnesi, sem því miður hefur ekki tekið til starfa, eru húsnæði sem mér finnst koma mjög vel til greina fyrir Náttúrugripasafn Íslands. Þar er mjög gott aðgengi fyrir rútur, sem sagt skólabörn, almenning og ferðamenn. Báðir þessir staðir eru með vítt útsýni og hægt er að tengja þá auðveldlega við náttúruna. Úti á Seltjarnarnesi er mikil sjávarsýn og fuglalíf þar í grenndinni. Við Perluna er þægilegt að tengjast jarðfræði þannig að ég spyr hvort ráðherra sé opinn fyrir því að skoða þessa möguleika, bæði Lækningaminjasafnið á Seltjarnarnesi með einhvers konar endurskoðun á þeim samningi sem þar er í gildi, en það hefur ekki tekist að koma safninu þar upp, og það væri kannski hægt að leysa það með því að koma náttúrugripasafni fyrir, annaðhvort einungis eða líka, eða að taka Perluna.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra verið í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur út af þessu máli og kemur að mati (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til greina að skoða báða þessa kosti betur en gert hefur verið?