140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

innheimtuaðgerðir fjármálafyrirtækja og sýslumanna.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að í máli mínu í gær, undir liðnum Störf þingsins, ríkir mikil óvissa á lánamarkaði hér á landi vegna gengisdóms Hæstaréttar í nýliðinni viku. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og hér á þingi eru heimili í nokkrum vanda vegna þeirra mála og ljóst að sú óvissa mun verða næstu vikur og ef til vill mánuði á meðan verið er að greiða úr henni.

Staða heimilanna er með þeim hætti sem við þekkjum og er skilgetið afkvæmi þeirrar oflánastefnu sem var við lýði um margra ára bil og menn eru enn að bíta úr nálinni með. Sölumenn lána fóru í söluferð hringinn í kringum landið og skuldsetningin er fyrir vikið gríðarleg meðal fyrirtækja og heimila. Á meðan þetta óvissuástand ríkir skyldi maður ætla að opinberar stofnanir, eins og sýslumenn og þar fyrir utan fjármála- og innheimtufyrirtæki, færu varlega í innheimtuaðgerðir, enda óvissan mikil og á eftir að greiða úr þeirri óvissu sem enn ríkir.

Mig langar því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvaða skilaboð hann vilji senda til þessara innheimtufyrirtækja, sýslumanna landsins og annarra sem hafa með vörslusviptingar að gera og geta gengið að eignum fólks á heimilum og jafnframt fyrirtækjum nú um stundir. Telur hann að fara þurfi með valdboði gegn þeim aðilum eða vill hann koma einhverjum ákveðnum skilaboðum til þeirra nú á meðan mikil óvissa ríkir um það hvernig á að greiða úr lánamálum fólks og fyrirtækja?