140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

innheimtuaðgerðir fjármálafyrirtækja og sýslumanna.

[10:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja það sem almennt er og snýr að viðbrögðum ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vanda sem uppi er í tengslum við skuldsett heimili og fyrirtæki, og þá ekki síst í kjölfar nýuppkveðins hæstaréttardóms, að við erum að vinna að því á mjög markvissan og vonandi skjótvirkan hátt að kortleggja stöðuna, hvað hægt er að gera og hvað beri yfirleitt að gera. Það eru mörg ráðuneyti sem koma þar að málum og einnig innanríkisráðuneytið.

Ég vænti þess að innan fárra daga líti þetta landakort skýrt út en ég vara við því að setja undir sama hatt mjög ólíka aðila eins og hv. fyrirspyrjandi gerði í annars ágætri fyrirspurn sinni og tilhlýðilegri. Sýslumenn eru eitt, fjármálafyrirtæki, bankar og innheimtuaðilar eru annað. Sýslumenn gera í raun ekkert annað en fara að dómsúrskurði eða niðurstöðu sem fengist hefur í réttarkerfinu.

Það sem ég vil gera er að beina þeim tilmælum til allra þeirra sem eru að ganga að skuldunautum sínum að íhuga vel hvort þar sé um að ræða kröfur sem álitamál eru uppi um og fara mjög varlega í sakirnar, gera minna en meira. Þessu beini ég að sjálfsögðu til fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem eru að innheimta kröfur. (Gripið fram í.) Sýslumenn fara að lögum. Ég hef rætt við formann Sýslumannafélagsins, (Forseti hringir.) gerði það í gær, mun eiga fund með sýslumönnum í landinu öllum á morgun, ég vil hafa þetta alveg á hreinu þannig að ekkert orki þar tvímælis. En fyrst og fremst beinum við að sjálfsögðu sjónum okkar að (Forseti hringir.) þeim sem eru að ganga að skuldunautum sínum, það eru fjármálafyrirtækin.