140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

innheimtuaðgerðir fjármálafyrirtækja og sýslumanna.

[10:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að við erum að fjalla um mjög alvarleg mál sem snerta grundvallaratriði, rétt einstaklinganna og rétt skuldsettra fyrirtækja líka. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að í lögum og reglum og iðulega í samningum hallar á þann sem er þiggjandi eða tekur lánið og við þurfum að gæta að því að réttarkerfið haldi uppi rétti þannig að á engum verði troðið.

Ég er einfaldlega að segja að við megum ekki rugla saman sýslumönnum sem eru að fara að lögum annars vegar og framfylgja því sem dómsúrskurðir kveða á um og hins vegar fjármálafyrirtækjum sem eru að ganga að skuldunautum sínum, þeim ber að sýna varúð. Ég legg til dæmis áherslu á það að við vörslusviptingu hefur enginn rétt til að ganga að eigum sem hann telur vera í sinni eign en í umsjá annars aðila og ef uppi er ágreiningur um það hvar eignin eigi að hvíla þá ber að framvísa dómsúrskurði áður en náð er í slíka eign.