140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

staða ríkisstjórnarinnar.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Staða ríkisstjórnarinnar er alveg prýðileg og ég þakka hv. þingmanni fyrir þá umhyggju sem hún ber fyrir þessari ríkisstjórn sem ítrekað hefur komið fram í þessum ræðustól og kemur aftur fram í dag. En það sem mér er gersamlega ómögulegt að skilja er sú andstaða sem hv. þingmaður sýnir ítrekað gagnvart stjórnlagaráði og vinnu við stjórnarskrá, kallar það þráhyggju að breyta stjórnarskránni. Þingið hefur verið ófært um það allan lýðveldistímann að endurskoða stjórnarskrána eins og við höfum verið að fara í gegnum þó að einstökum köflum hennar hafi verið breytt. Þess vegna var gripið til þess ráðs að færa það vald til fólksins að hafa skoðun á því hvernig stjórnarskráin eigi að vera, og ég er mjög ánægð með það ferli.

Ég vil minna á að minnihlutastjórnin sem kom til valda 2009, og naut stuðnings Framsóknarflokksins, var fyrst og fremst mynduð utan um það að breyta stjórnarskránni að kröfu framsóknarmanna. (Gripið fram í.) Það eru staðreyndir málsins sem við stöndum frammi fyrir. Við gerðum allt hvað við gátum þá til [Háreysti í þingsal.] að breyta stjórnarskránni en höfðum þá ekki erindi sem erfiði vegna afstöðu sjálfstæðismanna.

Mér kemur það gersamlega á óvart hve þingmaðurinn leggst hart gegn því að breyta stjórnarskránni og gegn því að þjóðin sjálf fái að segja álit sitt á því hvernig stjórnarskráin eigi að vera. Ég er í raun furðu lostin yfir því hver afstaða hv. þingmanns er til þessa máls.

Varðandi það ferli sem nú er í gangi þá er verið að hafa samráð við stjórnlagaráð eins og alla tíð hefur verið gert ráð fyrir eftir að málið hafði verið unnið í nefnd þingsins. Fyrst og fremst er verið að hafa samráð sem á að taka örfáa daga og ég vona að við náum því að þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þó að einhverjir stjórnlagaráðsmenn komist ekki til þessa fundar þá er nægilegt að það sé meiri hluti sem mætir til að þetta geti allt saman gengið fram.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að gefa ræðumönnum hljóð og tóm til að svara fyrirspurnum og gæta orða sinna í frammíköllum.)