140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

staða ríkisstjórnarinnar.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi ferð er dæmd til að mistakast, það er fyrir fram gefið af hv. þingmanni að þingið eða stjórnlagaráð muni ekki ráða við þetta mál, eða að þjóðin verði ófær um taka afstöðu til þessara tillagna um breytingu á stjórnarskránni. Mér finnst það með ólíkindum að hv. þingmaður skuli ekki hafa meiri trú á þjóðþinginu og þjóðinni. Ég held hún sé fullfær um að segja álit sitt á hvernig hún vilji hafa stjórnarskrána.

Varðandi líðan ríkisstjórnarinnar og hag hennar þá svaraði ég því til í upphafi að ríkisstjórnin er að vinna þau verk sem hún þarf að vinna. Það hafa fallið dómar. Við höfum heldur ekki verið að ganga í gegnum neitt venjulegt tímabil á þessum þremur árum. Það væri ábyggilega gott til upprifjunar fyrir hv. þingmann að skoða í fyrsta lagi hvað það var sem framsóknarmenn settu fram til að styðja minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna á sínum tíma. Það var meðal annars stjórnarskráin. (Forseti hringir.) Svo hefði hv. þingmaður gott af að fara yfir söguna og dóma sem hafa fallið í Hæstarétti þar sem lögum hefur verið hnekkt á meðan Framsóknarflokkurinn var við völd, og er örykjadómurinn þar kannski skýrasta dæmið.