140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[11:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætlaði að fagna ferð þessa máls í gegnum þingið. Hér er um að ræða breytingu á greinum matvælalaga þannig að ráðherra geti sett reglugerð um viðurkenndar áherslumerkingar um hollustu á matvælum.

Þetta mál hefur verið unnið í mikilli sátt og af mikilli elju í atvinnuveganefnd undir forustu hv. þm. Kristjáns L. Möllers en á rætur sínar [Háreysti í þingsal.] að rekja í þingsályktunartillögu frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem hefur barist fyrir hollustu matvæla og fleiri slíkum málum af elju í þinginu.

Þetta er mikilvægt mál vegna þess að velmegunarsjúkdómar herja á þjóðina og mannkynið af meiri krafti en nokkru sinni áður og það er mjög mikilvægt að almenningur sjái það skýrt og skorinort þegar hann er úti í búð [Háreysti í þingsal.] hvort matvælin sem hann er að kaupa séu holl eða ekki. Ég fagna því þess vegna að þetta mál skuli koma til afgreiðslu og nánast til lokaafgreiðslu, en hér er atkvæðagreiðsla eftir 2. umr.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að gefa ræðumönnum hljóð þegar þeir taka til máls um atkvæðagreiðsluna.)