140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[11:13]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Málið sem við greiðum nú atkvæði um er afrakstur vinnu við þingsályktunartillögu sem sú er hér stendur flutti ásamt fulltrúum úr öllum flokkum. Það var þverpólitísk samstaða um að flytja það mál.

Í síðustu viku samþykktum við að taka ætti upp Skráargatið, norræna hollustumerkið. Það var þingsályktun en atvinnuveganefnd ákvað að taka málið alla leið og við erum að afgreiða frumvarp um að hægt verði að taka Skráargatið upp og fleiri hollustumerki í framtíðinni ef menn vilja.

Ég þakka hv. þm. Þór Saari, talsmanni málsins í atvinnuveganefnd, og formanni nefndarinnar, hv. þm. Kristjáni L. Möller, og öðrum í atvinnuveganefnd sem hafa lagt sig í líma við að taka frumkvæðið og sýna það þrek og þor að koma málinu í endanlega afgreiðslu sem lagafrumvarpi, breyta lögum.

Við erum komin lengra en þingsályktunin kvað á um, við erum búin að afgreiða það sem við ætluðum ráðherranum að afgreiða. Það er til mikillar fyrirmyndar fyrir Alþingi og sýnir að Alþingi getur, þegar vilji er fyrir hendi, afgreitt svona góð mál sameiginlega.