140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[11:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni ágætismál sem ég styð enda er ég einn af flutningsmönnum þess. Hins vegar er það ekki þannig að þetta sé alveg gallalaust mál. Á þessu eru tilteknir skavankar sem við verðum að vera mjög vel meðvituð um og þurfum að reyna að fá breytt í því samstarfi sem við erum nú að taka upp með öðrum norrænum þjóðum.

Það er einfaldlega þannig að samkvæmt Skráargatinu eru tilteknir vöruflokkar útilokaðir frá því að geta fallið þar undir. Þetta getur orðið svolítið ankannalegt. Við sáum í morgun að ágætisverksmiðjubakarí var að fagna þessu vegna þess að það sá tækifæri til að bjóða upp á vörur af þessu tagi. Það mun hins vegar ekki eiga við um handverksbakara sem verða þá settir skörinni lægra. Þetta getur líka átt við um fleiri vöruflokka. Þessu þarf að breyta.

Þrátt fyrir þessa galla, þrátt fyrir þessa skavanka, tel ég að þetta sé framfaramál og sjálfsagt að við styðjum það. En jafnframt skulum við vera þess meðvituð að það á að vera eitt af erindum okkar inn í þetta samstarf að reyna að fá þessum hlutum breytt á þann veg að opnað verði á hollustuvörur í fleiri vöruflokkum en gert er ráð fyrir í þessu Skráargati eins og það liggur fyrir í dag.