140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

náttúruvernd.

63. mál
[11:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt að geta þess að í umhverfis- og samgöngunefnd hefur almennt ríkt jákvætt viðhorf gagnvart meginmarkmiðum þessa frumvarps. Allir eru sammála um að akstur utan vega og önnur náttúruspjöll sem unnin eru eru alvarlegt mál sem þarf að bregðast við af fullri alvöru.

Ég treysti mér hins vegar ekki til að styðja þetta frumvarp á þeirri forsendu að mér finnst dálítið óljóst hvort það að hækka lágmarksrefsingu verði til þess að þau vopn sem yfirvöld hafa gagnvart brotum af þessu tagi verði virkari en ella. Það er ekki víst að það muni raunverulega hafa svo mikil áhrif að hækka lágmarksrefsinguna. Það sem er fyrst og fremst vandamál í þessu samhengi eru, held ég, ekki refsingarnar heldur hve erfitt er að hafa eftirlit með brotum af þessu tagi og hve erfitt er að sanna þau. Ég efast því um, þótt (Forseti hringir.) frumvarpið sé flutt af góðum vilja og í góðum ásetningi, að það muni ná tilgangi sínum.