140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

náttúruvernd.

63. mál
[11:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur blasað við þeim þúsundum Íslendinga sem hafa ferðast um hálendi Íslands á undanförnum árum að utanvegaakstur er vaxandi vandamál. Alls kyns umferð um viðkvæmt hálendið hefur valdið miklu tjóni. Því er rík ástæða til að bregðast við. Með þessu frumvarpi er það gert. Einnig er verið að senda skilaboð út í samfélagið um að það ástand sem nú ríkir sé óviðunandi, aukinni og vaxandi umferð um viðkvæmt hálendi Íslands fylgi rask sem sé illbætanlegt og taki oft langan tíma að ná utan um.

Það er alveg rétt að það er erfitt að fylgja þessu eftir og það er erfitt að halda úti virku eftirliti á hinu stóra og mikla hálendi, en þetta er samt sem áður skref í rétta átt.

Þetta frumvarp er mjög brýnt innlegg í þessa umræðu og hv. þm. Róbert Marshall á heiður skilinn fyrir að leggja það fram og vekja athygli á því vaxandi vandamáli sem fylgir gífurlegum ferðamannafjölda, þegar þúsundir ferðamanna (Forseti hringir.) innlendra og erlendra sækja okkar glæsilega hálendi heim og skoða víðerni landsins.