140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég tel ástæðu til að ræða áætlun fjárlaga fyrir árið 2012 af ýmsum ástæðum. Ég tel raunar fulla þörf fyrir að bæði fjárlaganefnd og fjármálaráðuneyti setjist vandlega yfir þá stöðu sem er að koma upp. Það er alveg augljóst ef maður lítur yfir síðustu ár að afkoma ríkisins hefur versnað. Við horfum til þess að í ríkisreikningi, ef maður skoðar hann sérstaklega, var afkoma í reglulegri starfsemi ríkissjóðs neikvæð upp á 21 milljarð árið 2008. Hún hefur svo stöðugt versnað síðan. Neikvæð staða í árslok 2010 er 61 milljarður í mínus og það er sú fjárhæð sem á að vera til ráðstöfunar fyrir ríkissjóð til greiðslu upp í vexti og afborganir lána. Þessi niðurstaða og afkoma út úr reglulegri starfsemi þýðir einfaldlega að við þurfum að skuldsetja okkur til að eiga fyrir vöxtum og afborgunum.

Þetta kann að skjóta nokkuð skökku við í ljósi þess að hamrað hefur verið á því undanfarið að búið sé að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðsins en þegar maður skoðar það er ástæðan fyrir því fyrst og fremst í óreglulegum liðum. Það hefur verið rætt um að hallinn hafi farið úr 215 milljörðum niður í 123 milljarða. Það er rétt í heildarsamhenginu en ástæðan fyrir þeim bata er fyrst og fremst sú að á árinu 2008 voru afskrifaðar kröfur upp á 192 milljarða sem vonandi og væntanlega koma aldrei aftur inn með þeim hætti í bókhald ríkisins.

Í ljósi þessarar niðurstöðu tel ég að full ástæða sé til að vera á varðbergi gagnvart því hvernig við höldum utan um hluti sem lúta að fjármunum ríkisins. Þess vegna er þessi umræða tekin við hæstv. fjármálaráðherra og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hverja hún sjái útkomu á árinu 2011 verða. Við höfum ákveðin teikn um að þar eigi eftir að koma inn til gjalda útgjöld sem ekki var tekið tillit til við gerð fjáraukalaga. Ég held að það sé líka full ástæða til að heyra afstöðu og skoðanir hæstv. ráðherra á þeirri áætlun um fjárlög fyrir árið 2012, hvernig hún muni ganga fyrir sig. Það var upplýst á fundi fjárlaganefndar fyrir ekki ýkja löngu að að minnsta kosti eitt ráðuneyti hóf í janúar gerð og undirbúning að fjáraukalagabeiðnum. Það er því ýmislegt sem við getum kallað veikleika við fjárlagagerðina sem er að koma fram á þeim vikum sem nú eru liðnar af þessu annars ágæta ári.

Ég held því fram að ákveðið agaleysi sé enn við lýði varðandi ríkisfjármálin. Í því sambandi nægir að nefna að þegar maður horfir yfir lengri tíma eru gríðarleg frávik frá því frumvarpi sem ríkisstjórn leggur fram á ári hverju og til þeirrar niðurstöðu sem birtist í ríkisreikningi, þ.e. uppgjöri þess árs. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu 1998–2007 var mismunur á fjárlögum og ríkisreikningi um 9,1%. Frávikin á árunum 2008–2011 eru 2,7%, þ.e. 53 milljarðar, og þá höfum við ekki enn séð ríkisreikninginn fyrir árið 2011. Að þessu sögðu er ljóst að verklagið hefur verið á þann veg að útgjöld er verið að færa inn á viðkomandi fjárhagsár löngu eftir að búið er að taka afstöðu til þess í fjárlögum.

Það er líka ástæða til að staldra við og vekja athygli á þeirri ábendingu sem kom frá ríkisendurskoðanda, dagsett 15. febrúar, um samþykkt og skráningu rekstraráætlana. Þar kemur fram um skil og samþykkt rekstraráætlunar sem bundið er í reglugerð að því er ekki fylgt af ráðuneytunum. Eitt ráðuneyti stendur þó upp úr og þess ber að geta sem vel er gert, það er forsætisráðuneytið sem vinnur sína vinnu nákvæmlega samkvæmt þeirri reglugerð sem yfir þetta tekur.

Velferðarráðuneytið með stærstu útgjöldin hefur ekki enn sýnt þá verkstjórn að ljúka einni einustu afgreiðslu á áætlun. Það er hins vegar ljóst að utanumhaldið um þetta er enn of losaralegt og því kalla ég eftir því frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig hún sjái framgang þeirrar áætlunar sem birtist í fjárlögum ársins 2012 og enn fremur óska ég upplýsinga um mat hennar á áætlaðri útkomu ársins 2011.