140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þessi mál til umfjöllunar á þinginu. Ég held að staðreyndin sé sú, og það kemur eðlilega fram þegar við ræðum fjárlögin, að þingmenn ræði allt of lítið þessa mjög svo mikilvægu hlið ríkisrekstursins. Hins vegar eigum við það oft og tíðum til að detta í hjólfar einhverrar pólitíkur eins og við ræddum áðan. Það hefur ekkert með flokkapólitík að gera hvernig gengur í ríkisrekstri. Það sem að er eru tæknilegir hlutir sem við höfum ekki enn náð tökum á. Þess vegna vil ég taka það til umfjöllunar í þessari stuttu ræðu að forsenda þess að hægt sé að standa við áætlun fjárlaga, hvort sem er 2012 eða á næstu árum, eða uppgjör síðustu ára, er að það sé samtímauppgjör, að við séum ekki að samþykkja fjárlög 2010 seint á þessu ári heldur að við hver mánaðamót og við lok hvers árs liggi fyrir hver staðan er.

Það eru nægilega margir fjármálastjórar í öllum ríkisstofnunum landsins. Hjá ríkinu ætti að vera hægt, eins og hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjunum í landinu, að gera upp mánaðarlega og þá liggi staðan fyrir. Það er forsendan fyrir aga, eftirliti og því að menn setji síðan fram áætlanir af einhverri skynsemi.

Við framsóknarmenn lögðum fram í bæklingi sem við köllum plan B og áætlun sem við lögðum fram í haust tillögur um að menn tækju upp lengri tíma áætlanir, þriggja og fimm ára áætlanir, sem byggðust á raunverulegum tölum, tækjum upp raunverulegt heimilisbókhald í rekstri ríkisins. Það er gert hjá sveitarfélögunum og ríkisvaldið hefur hamrað á því daginn út og inn að sveitarfélögin í landinu eigi að taka það upp. Af hverju er hitt stóra stjórnsýslustigið í landinu svo illa í stakk búið að það getur það ekki? Það er vandinn og ef við náum ekki tökum á honum náum við aldrei tökum á því að setja fram raunverulegar áætlanir (Forseti hringir.) sem standast.