140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það umræðuefni sem hér er verið að gera nokkur skil er vissulega mikilvægt. Ég tek fram að gefnu tilefni að það er rétt að það verður fundur á miðvikudaginn í fjárlaganefnd. Í kjölfar þess fundar og reyndar margra annarra funda um þetta mikilvæga mál munu gefast tækifæri og tilefni til að ræða fjármál ríkisins hér í þingsalnum. Reyndar get ég tekið undir það sem einn hv. þingmaður sagði hér, að það mætti jafnvel leggja sérstaklega á sig að auka þá umræðu, svo mikilvægt er málið.

Ég vek sérstaklega athygli á ábendingu frá Ríkisendurskoðun sem barst 15. febrúar á þessu ári og snýr að skilum, samþykktum og skráningu rekstraráætlana sem eru grundvallaratriði þegar kemur að því að ná fram aga í ríkisfjármálunum. Það er tvennt sem ég vil benda sérstaklega á þar, í fyrsta lagi að samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana ber ráðuneytunum að fara yfir rekstraráætlanir einstakra stofnana. Með leyfi frú forseta vil ég grípa niður í þessa ábendingu frá Ríkisendurskoðun. Þar stendur:

„Umhverfisráðuneytið veitti Ríkisendurskoðun ekki umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir að hafa fengið til þess fimm daga viðbótarfrest.“

Síðar segir, með leyfi frú forseta:

„Því gerir Ríkisendurskoðun alvarlega athugasemd við að ráðuneytið hafi ekki veitt umbeðnar upplýsingar.“

Á þessu þarf að gera bragarbót.

Í öðru lagi vil ég benda á að í sömu ábendingu frá Ríkisendurskoðun er vakin athygli á því að fjölmargar stofnanir hafa fengið samþykkt ráðuneyta til að nýta sér að miklu eða öllu leyti þær ónýttu fjárheimildir sem hafa legið hjá stofnununum. Þetta bendir til þess að á næsta fjárlagaári, árið 2013, verði verkefni Alþingis enn erfiðara vegna þess að þá sé fyrirsjáanlegur aukinn niðurskurður vegna þess að það er búið að klára þessar fjárheimildir. (Forseti hringir.) Þetta er alvarlegt mál og nauðsynlegt fyrir fjárlaganefnd og Alþingi allt að veita þessu athygli.