140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[11:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er viðvarandi eilífðarverkefni að bæta gerð og framkvæmd ríkisfjármála. Margt hefur verið gert til nýbreytni og bóta á síðustu árum og heilt yfir hefur að mörgu leyti náðst framúrskarandi árangur í ríkisfjármálum í gegnum tíma samdráttar, kreppu og erfiðleika. Það fólst í fyrsta lagi í því að fylgja eftir gerðu samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um jöfnuð í ríkisfjármálum. Sú ákvörðun að fylgja eftir þeirri áætlun skipti gífurlegu máli, svo og forgangsröðun í þágu hinna viðkvæmu og mikilvægu málaflokka velferðar og menntunar. Alþingi, fjárlaganefnd, fjármálaráðuneyti hafa allt þetta ár séð um að framkvæmd ríkisfjármála í gegnum þessi þrjú erfiðu ár hefur gengið vel og skilað eftirtektarverðum árangri í ríkisfjármálum landsins. Það er tekið til fyrirmyndar úti um gervalla veröld þegar fjallað er um hvernig hinn vestræni heimur hefur farið í gegnum hörmungar fjármálakreppunnar á síðustu fjórum árum.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að áfram verði haldið á sömu braut varfærni og ábyrgðar í ríkisfjármálum. Það er núverandi hæstv. fjármálaráðherra að gera, sem og núverandi Alþingi og fjárlaganefnd, en auðvitað skiptir meginmáli upp á að í haust og á næstu árum verði hægt að bæta við í þá málaflokka sem við viljum fjárfesta í, velferð, menntun og ýmsu öðru, að stuðla að enn auknum hagvexti. Það gengur vel í ferðaþjónustu, fiskveiðum og ýmsu öðru. Við þurfum að sjá ganga til framkvæmda stór verkefni á sviði orkumála, uppbyggingar í iðjuverum, álver, kísilver og ýmislegt annað sem er að færast af teikniborðinu yfir á framkvæmdastig. Rammaáætlun er rétt handan við hornið þannig að við getum séð margt gott gerast sem bætir mjög, en hóflega, við hagvöxt á næstu árum þannig að ríkisfjármálin verði (Forseti hringir.) bærilegri í framkvæmd.