140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[12:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, hefur margoft bent á það agaleysi sem ríkir við framkvæmd fjárlaga og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson málshefjandi fór einmitt yfir það áðan í ágætri ræðu. Niðurstaða mín er að það þurfi að gera miklu betur þegar þessi mál eru skoðuð.

Það er mjög athyglisvert að sjá það sem Ríkisendurskoðun bendir á í nýlegu skjali frá 15. febrúar 2012 sem heitir Skil, samþykkt og skráning rekstraráætlana. Þar er lagaumhverfinu lýst. Stofnanir eiga að skila ráðuneytum rekstraráætlun á ákveðnum tíma, svo á ráðuneytið að samþykkja hana. Nú kemur í ljós að þrjú ráðuneyti hafa hlotið samþykkt ráðuneytis innan marka og standa sig vel að því leytinu til. Þau eru forsætisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Það er nú kannski ekkert svo merkilegt. Það sem er merkilegt er hvaða ráðuneyti skila ekki eða hafa ekki samþykkt neina rekstraráætlun innan marka. Þrjú ráðuneyti samþykkja ekkert innan marka, engar rekstraráætlanir hjá stofnununum. Þau eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og velferðarráðuneytið. Þarna vil ég stinga sérstaklega út mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið, af því að þar fara svo miklir peningar í gegn. Þetta er því mjög alvarlegt. Ríkisendurskoðun segir að tvær af hverjum þremur stofnunum fari inn í fjárlagaárið án samþykktrar rekstraráætlunar. Svo eru tilgreind ráðuneyti og stofnanir sem samþykkja áætlanir sem eru ekki innan fjárheimilda, það er bara lagabrot. Þetta er alvarlegt.

Síðan vil ég árétta það að í fjárlagagerðinni á næsta ári á að skera niður um 5 milljarða. Við erum þá að fara inn í kosningaár. Það er því mjög brýnt þegar við erum að tala um agaleysi að við lítum okkur svolítið nær í því. Ég tel mjög mikilvægt þegar við afgreiðum fjárlög í haust að við missum ekki tök á því vegna kosningaárs.