140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

áætlun fjárlaga ársins 2012.

[12:03]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að ég sé ekki að kasta rýrð á nokkurn ræðumann í þessari umræðu get ég ekki látið hjá líða að lýsa yfir eindæma ánægju með þá fádæma bjartsýni og brosandi ræðu uppfulla af góðu innleggi frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur áðan. Það var ánægjulegt að verða vitni að því á þessum morgni (Utanrrh.: Ávíta þingmanninn fyrir það.) hversu ábyggilega hv. þingmaður nálgaðist umræðuna.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er fyrirhugaður fundur í fjárlaganefnd þar sem á að fara yfir þessa stöðu. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað er mjög góður undirbúningur undir þann fund, ég tel hann nauðsynlegan. Ég hef ekki verið að fara ofan í einhverjar pólitískar skotgrafir. Það sem ég er að rekja (Utanrrh.: Það gerir þingmaðurinn aldrei.) — geri það aldrei, hæstv. utanríkisráðherra, þakka þér fyrir það. Ég er að rekja hér stöðu mála eins og hún birtist í ríkisreikningi. Það er full ástæða til að taka þær upplýsingar alvarlega án þess að við förum í einhverjar skotgrafir vegna þess, að gefa ákveðnar vísbendingar og vísbendingarnar eru því miður með þeim hætti að við þurfum að treysta betur böndin á ríkisrekstrinum en verið hefur. Það er bara svo einfalt mál.

Það kemur fram í því blaði sem hér er vitnað til frá Ríkisendurskoðun að stofnanir ríkisins víða eru að ganga á svokallaðar fyrningar, yfirfærðar fjárheimildir. Ríkisendurskoðun fullyrðir að það muni koma fram í meiri samdrætti á árinu 2013 en menn hafa að öllu jöfnu gert ráð fyrir.

Þetta eru merki sem ég tel að fjárlaganefnd þurfi að fara mjög ítarlega í gegnum og að viðbættum þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra lagði fram varðandi þætti sem koma inn til gjalda, þá er þetta verkefni sem bíður fjárlagagerðarinnar fyrir árið 2012, gríðarlegt að vöxtum, og verður erfitt, ef ekki erfiðara viðfangs en fjárlagagerðin fyrir árin 2011 og 2012.