140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 65/2009 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

538. mál
[12:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sem var settur við þetta mál leita ég með tillögu þessari heimildar Alþingis til þess að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009. Hún fjallar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn, eins og kom fram í upphafsorðum hæstv. forseta, og er um flutningastarfsemi. Sömuleiðis felst í þessu að inn í samninginn verði felld tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem er auðkennd með heitinu 2005/35/EB. Hún fjallar um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og um upptöku viðurlaga við brotum.

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um þá skyldu ríkja Evrópusambandsins að innleiða í löggjöf sína ákvæði um að losun mengandi efna í hafi sé brot sem feli í sér refsiviðurlög eða stjórnsýsluviðurlög, ef slík losun á sér stað af ásetningi, af gáleysi eða alvarlegri vanrækslu.

Í því tilviki telst ábyrgur aðili ekki einungis eigandi skips eða skipstjóri, heldur getur ábyrgðin sömuleiðis náð til eiganda farms, flokkunarfélaga eða annarra einstaklinga sem tjóni tengjast.

Ég leyfi mér sérstaklega að vekja eftirtekt frú forseta og hv. formanns utanríkismálanefndar, sem hér er í salnum, á því að í 2. málslið 4. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að slík brot skuli telja refsiverðan verknað í tilteknum tilvikum sem þar eru rakin.

Ég vil þá frá því greina að af hálfu EFTA-ríkjanna var hins vegar gerð krafa við upptöku gerðarinnar að málsliðurinn sem ég rakti hér ætti ekki við um upptöku hennar í EES-samninginn þar sem refsiákvæði falli ekki undir hann.

Eins og gleggstu þingmenn hafa örugglega rekið augun í nú þegar kemur aðlögunartexti þess efnis fram í 1. gr. ákvörðunar nr. 65/2009.

Frú forseti. Til að innleiða þessa tilskipun þarf að breyta lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, eða setja ný lög sem snúa að mengun frá skipum sem á sér stað eða kynni að eiga sér stað á úthafinu. Til að mæta því hyggst hæstv. umhverfisráðherra leggja fram frumvarp sem tekur yfir nauðsynlegar lagabreytingar og það á þessu þingi.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni sem ég hef nú lokið við að mæla fyrir vísað til hv. utanríkismálanefndar.