140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

540. mál
[12:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að mæla fyrir þessum tillögum sem koma síðan til meðferðar í hv. utanríkismálanefnd, og verður fróðlegt að takast á við efni þeirra þar.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í framsögu sinni í þessu máli og reyndar fyrri málum einnig að um væri að ræða aðlögun að Evrópusambandinu. Öll erum við að sjálfsögðu viljug til að bæta andrúmsloftið og heilsu manna, en hvort aðlögun að Evrópusambandinu er sérstaklega heilsusamleg eins og ráða mátti af ræðu hæstv. utanríkisráðherra er annað mál.

Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra út í eru þær loftgæðaáætlanir sem tilskipunin gerir ráð fyrir. Hvernig er gert ráð fyrir að að þeim sé staðið? Hverjir standa fyrir þeim? Liggur fyrir einhver áætlun um það hversu kostnaðarsamar þær kunna að vera og hver muni þá bera kostnaðinn af því? Mun hann verða á herðum sveitarfélaganna eða ríkisins? Hver ber kostnaðinn af þessum áætlunum? Liggur fyrir einhvers konar kostnaðarmat eftir því sem hæstv. ráðherra kann að vera kunnugt um?