140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

ráðherraábyrgð.

86. mál
[12:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er síður en svo á móti efnislegu inntaki þess frumvarps sem hv. þingmaður var að flytja framsögu fyrir. Ég tel að það sé nánast pólitísk banasök ef ráðherra gefur viljandi rangar upplýsingar. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé ákaflega fátítt í þingsögunni að menn hafi gert það. Ég held að ráðherrar leggi sig almennt fram um að svara sannleikanum samkvæmt.

Hv. þingmaður rifjaði hér upp eitt dæmi sem varðaði hæstv. núverandi efnahagsráðherra sem þá gegndi stöðu fjármálaráðherra, dæmi sem við þekkjum ákaflega vel, þegar hann var spurður hér hvort það væri að koma samningur í Icesave-málinu hinu fyrsta sinni. Hæstv. ráðherra svaraði þá með þeim hætti að það var ekki hægt að skilja annað en að svo væri ekki. Það þýðir ekki að hægt sé að draga þá ályktun að viðkomandi ráðherra hafi beinlínis viljandi villt um fyrir þinginu. Öll þjóðin og ekki síst þingið vissi að samningaviðræður stóðu yfir en það gerist oft þegar um er að ræða samninga, ég tala nú ekki um þegar menn hafa verið að þæfa erfiða samninga lengi, að skyndilega rofnar stífla og það brestur á með samningi. Það er alls ekki hægt að nota þessa atburðarás til að halda því fram að hæstv. ráðherra hafi á þeirri stundu þegar hann sagði nei viljandi gefið rangar upplýsingar. Þetta þekki ég úr erlendum samningum, þeir geta brostið á með mjög litlum fyrirvara þegar, eins og samningavant fólk veit, einhver stífla ryðst burt og þá kemur allt hitt á eftir. Það verður flæðandi samningur.

Ég vil bara taka það skýrt fram að ég hafna þeirri túlkun að hæstv. ráðherra sem þá fór með þann málaflokk hafi viljandi gefið þinginu rangar upplýsingar. Það gerði hann ekki.