140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

húsaleigubætur.

112. mál
[12:53]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar við það sem kom fram í máli framsögumanns, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Staðan er mjög sérstök á húsnæðismarkaðnum í dag og sem dæmi má nefna að þinglýstum húsaleigusamningum hefur fjölgað, þeir hafa tvöfaldast á ári undanfarin þrjú til fjögur ár. Á síðasta ári var vel yfir 6 þúsund húsaleigusamningum þinglýst í landinu en á sama tíma var rétt um 3 þúsund eignasamningum þinglýst. Þetta lýsir sér auðvitað í því að mikill skortur er á leiguhúsnæði og það finnst kannski sumum sérkennilegt miðað við alla þá umræðu sem gengur út á það að hér sé yfirdrifið nóg af húsnæði. Vissulega er til ónotað húsnæði en það er mikill skortur á leiguhúsnæði vegna þess að það er ásókn í slíkt húsnæði.

Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að það er mikil mismunun í gangi gagnvart fólki eftir því hvort það leigir húsnæði eða er að reyna að eignast húsnæði hvaða stuðning það fær frá hinu opinbera varðandi bætur. Húsaleigubætur eru um 4 milljarðar á ári en það er rétt innan við helmingur allra þeirra sem eru í leiguhúsnæði sem eiga rétt á slíkum bótum. Vaxtabætur með sérstöku vaxtaviðbótarframlagi eru núna hins vegar um 15–16 milljarðar þannig að það eru tæpir 20 milljarðar inni í kerfinu í dag.

Ég nefni þetta með vísan til þeirrar tillögu sem ég tek heils hugar undir að tekin verði til afgreiðslu hér og fari til yfirferðar í velferðarnefnd. Það er verið að fara heildstætt yfir þessi mál, það eru vinnuhópar starfandi á vegum velferðarráðherra við að fara yfir mótun nýrrar húsnæðisstefnu. Þar er sérstaklega tekið á húsnæðisbótamálum, þ.e. að sameina vaxtabætur og húsaleigubætur í einu sameiginlegu húsnæðisbótakerfi. Stefnt er að því að leggja fram slíka tillögu fyrir vordaga þannig að slíkt fyrirkomulag yrði komið á eigi síðar en um næstu áramót.

Málefni námsmanna eru einn þátturinn í þeirri yfirferð sérstaklega, vegna þess að gilt hafa ákveðnar reglur um húsaleigubætur í þeim efnum eins og framsögumaður kom inn á. Það er skökk staða í þessu máli í dag einmitt vegna þess hvernig ástandið er á húsnæðismarkaðnum og brýnt er að reyna að leysa úr þeim málum, jafnvel þó að það sé til bráðabirgða, þar til nýmótuð framtíðarstefna um húsnæðisbætur tekur gildi.