140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er nýbreytni á Alþingi, sem við kynntumst fyrir jól, að Sjálfstæðisflokkurinn vill taka aftur samþykktir Alþingis, nú þingsályktun frá í gær sem samþykkt var með 30 atkvæðum að lokum. Mér finnst sá málatilbúnaður með ólíkindum sem hér er hafður uppi. Á fundi forsætisnefndar, sem haldinn var meðal annars í tilefni bréfs Salvarar Nordal og var nú rétt að ljúka, var upplýst hvernig samráð hefur verið haft við forustuna í stjórnlagaráði, þar á meðal formann, varaformann og formenn nefnda, um undirbúning að því samráði sem nú skal fara af stað samkvæmt þingsályktunartillögunni frá í gær.

Auðvitað kemur til greina að breyta þessari dagsetningu ef það hentar (Forseti hringir.) formanni stjórnlagaráðs að mæta 10., 11. og 12. eða hvað það nú er, frekar en (Forseti hringir.) þá daga sem rætt hefur verið um. Dagsetningarnar koma nefnilega ekki fram í þingsályktuninni þannig að menn eiga ekkert að (Forseti hringir.) gera sér óþarfaáhyggjur hér.