140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar aðeins að ræða um hvað ályktun frá Alþingi þýðir. Ályktun frá Alþingi er ekkert ofan á brauð, hún er eitthvað sem á að standa. Við höfum ályktað um ýmsa hluti á Alþingi í gegnum tíðina sem hafa bara gleymst í einhverjum ráðuneytum. Nú erum við að reyna að taka okkur á. Í nýjum þingsköpum eru til dæmis ákvæði um að forsætisráðherra skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þinginu skýrslu um hvernig gengur að framfylgja ályktunum. Ég hafna því alfarið að hringlað verði með ályktanir Alþingis með þessum hætti.

Við höfum aðeins rætt bréf frá fyrrverandi formanni stjórnlagaráðs. Þar er ýmislegt sem kemur mér á óvart vegna þess að við, vinnuhópur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, áttum mjög góðan fund með fulltrúum stjórnlagaráðs, meðal annars Salvöru Nordal, þar sem rík áhersla var lögð á að ráðið yrði kallað formlega saman þannig að allir ráðsmenn hefðu (Forseti hringir.) sömu stöðu.