140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega ekki neitt óljóst í þessu máli. Það sem ruglar menn kannski í ríminu er að hér er allt uppi á borðum, hér hefur verið nákvæmlega skýrt frá því hvað við erum að gera. Það kemur fram í þingsályktunartillögunni og það var samþykkt hér í gær. Það er líka alveg ljóst að bréfið til fulltrúanna er ekki farið og ef þingmenn líta svo á að það sé betra að byrja ekki 8. heldur 10. getum við alveg athugað það. Það er hárrétt að við töluðum saman, við formaður stjórnlagaráðsins. Í því samtali kom ekki fram að hún teldi að varna ætti því að ráðið kæmi saman akkúrat þessa daga. Formaður ráðsins verður á landinu tvo seinni dagana sem áætlað er að funda um málið. Þetta er því bara stormur í vatnsglasi, bara af því að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefur ekkert annað að gera.