140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræðuna um fundarstjórn forseta vegna þess fundar sem haldinn var í forsætisnefnd í morgun og þeirra upplýsinga sem hafa borist, bæði í gær og í dag, varðandi afstöðu fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna til þess sem hér er verið að gera. Mér þykir leitt að sjá með hve léttvægum hætti ýmsir þingmenn taka á þessum athugasemdum.

Við erum að tala um sjálfa stjórnarskrána og hljótum að ætla að vanda til verka. Allt uppi á borðum, fullyrðir formaður nefndarinnar. Hvað er ekki uppi á borðum? Ég veit ekki enn um hvað á að ræða á þessum fundum stjórnlagaráðs. Það er til dæmis ekki uppi á borði.

Þetta þykir mér ekki við hæfi og ég spyr forseta: Hver er það sem á að hafa eftirlit með eftirlitinu, þ.e. eftirlit með því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vandi til verka?