140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er alveg forkostuleg umræða sem hér fer fram. Alþingi tók ákvörðun í gær, í atkvæðagreiðslu um tillögu til þingsályktunar sem hér hefur verið til umfjöllunar á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og ákvað að setja stjórnarskrárendurskoðunarmálið í tiltekinn farveg. Eftir þeirri ályktun Alþingis hlýtur að verða farið og ég trúi ekki öðru en þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkum, sem ýmist greiddu atkvæði gegn tillögunni eða sátu hjá, vilji samt sem áður að farið verði eftir ályktun Alþingis.

Hvað eru þeir að boða hér? Þeir eru að gera það að sérstöku umræðuefni að illa sé staðið að málinu. Hvers vegna? Af því að það á að hafa meira og víðtækara samráð en kannski ella með því að kalla þá sem unnu drög að stjórnarskránni til samráðs á nýjan leik, leggja fyrir þá nokkur álitamál og spurningar. Stjórnarandstöðunni hefur verið boðið að leggja inn í það púkk, hún ætlar kannski ekki að þiggja það, (Forseti hringir.) þeir sem voru á móti málinu.

Þessi umræða er algerlega forkostuleg, herra forseti. Við eigum að sjálfsögðu að halda okkur við þá ályktun sem Alþingi samþykkti og vinna áfram að (Forseti hringir.) endurskoðun stjórnarskrárinnar í nánu samráði við þjóðina. Það er augljóslega það sem Sjálfstæðisflokkurinn og hluti Framsóknarflokksins óttast.