140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það bréf sem okkur í forsætisnefnd barst frá fyrrverandi formanni stjórnlagaráðs er tilefni þeirra athugasemda sem gerðar eru undir þessum lið af minni hálfu að minnsta kosti, og ég ætla mér ekki að tala fyrir alla. Eitthvað af þeim athugasemdum virðist mér af lestri bréfsins hafa legið fyrir fyrir fram, að minnsta kosti til formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Mér voru þær hvorki ljósar né afstaða formannsins og það eru slæleg vinnubrögð. Ég mun alltaf tala í þessum ræðustól gegn slælegum vinnubrögðum. Ég mun alltaf verja stjórnarskrána, mér ber að gera það og öllum þeim sem starfa á þessum vinnustað. Listi yfir þau verkefni og þær spurningar sem bera á undir stjórnlagaráð lágu ekki fyrir þegar mér var gert að taka ákvörðun í gær. Það eru ekki góð vinnubrögð að mínu mati. Það á allt að liggja uppi á borðum. Það er einfaldlega ekki staðan. (Forseti hringir.) Það eru ámælisverð vinnubrögð og okkur ber að læra af reynslunni þegar við klúðrum málum og hér er eitt slíkt mál sem við verðum að læra af. (Gripið fram í: Þetta er bara rangt.)