140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Hafi virðulegur forseti verið í vafa þá hefur hann séð, við þessa umræðu um fundarstjórn forseta, í hverju vandinn liggur. Í stað þess að menn fáist til að ræða um vinnulagið við breytingar á stjórnarskránni og þá galla sem eru á henni, og beina því þá til hæstv. forseta hvernig helst megi bæta úr því, þá er farið í það enn og aftur að gera mönnum upp skoðanir og ekki bara það heldur koma menn eins og hv. þm. Þór Saari og bara skálda upp hvað menn hafa verið að segja í ræðum um málið. Þetta er náttúrlega í samræmi við málflutninginn, röksemdafærsluna, hjá stjórnarliðum í þessu máli, snýst ekkert um stjórnarskrána eða vönduð vinnubrögð, snýst bara um pólitíska leiki. Og ef menn hafa ekki efnivið í það þá bara gera þeir mönnum upp skoðanir og skálda hvað þeir hafa sagt í ræðustól.

Þetta mál er komið aftur inn til þingsins, löngu eftir að allir frestir voru liðnir sem gert var ráð fyrir, í framhaldi af leynifundum Hreyfingarinnar með ríkisstjórninni.