140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

frekari aðkoma stjórnlagaráðs að vinnu við stjórnarskrá.

[13:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég leyfi mér að benda hv. formanni Framsóknarflokksins á að við erum að fylgja eftir stefnuskrá Hreyfingarinnar sem er rúmlega þriggja ára gömul varðandi stjórnarskrána og það er annað en hann og þrír þingmenn úr hans flokki gerðu í umræðunum á þriðjudag þar sem þeir töluðu þvert gegn ályktunum flokksins og kröfu þeirra í ríkisstjórnarsamstarfi.

Ég bið hv. formann Framsóknarflokksins að hlusta á sína eigin ræðu, sem hann flutti á þriðjudaginn, því að hún var með slíkum ólíkindum að það var ótrúlegt að hlusta á, þar sem fasistar og kommúnistar voru lagðir að jöfnu við þá sem vildu nýja stjórnarskrá á Íslandi. Það er ömurlegt að hlusta á þennan málflutning og menn verða einfaldlega að viðurkenna það og sætta sig við það að þeir eru í minni hluta í þessu máli.

Þrír þingmanna Framsóknarflokksins töluðu gegn málinu. Þeir eru eitthvað fleiri enn þá í þinginu þannig að greinilega er það minni hluti þingflokksins sem virðist vera á móti þessu máli. Því háværari eru þeir en því málefnalausari eru umræður þeirra líka. Umræðan er algerlega búin að vera úti á túni eins og kom skýrt fram í ræðu formannsins á þriðjudag.