140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er grátlegt að horfa upp á að tækifæri til landbúnaðar séu ekki nýtt og að gott ræktunarland sé ekki nýtt til að framleiða góða vöru. Vonandi leysist úr þessu stóra máli fyrr en seinna.

Mig langaði að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann, af því að hart er sótt að íslenskum landbúnaði af þeim sem vilja ekkert frekar og sjá þá einu lausn að koma Íslandi inn í Evrópusambandið sem mun hafa mjög slæm áhrif á stöðu íslensks landbúnaðar: Telur hv. þingmaður að sú umræða sem hefur að litlu leyti farið af stað aftur um nýtt kúakyn á Íslandi eigi erindi inn í þá umræðu sem nú fer fram um íslenskan landbúnað og eigi jafnvel erindi inn í þingið varðandi það hvernig við getum styrkt íslenskan landbúnað til að svara þeim hörðu gagnrýnisröddum og þeim miklu árásum sem íslenskur landbúnaður mun verða fyrir á næstu missirum af hálfu þeirra sem vilja ekkert annað en að við göngum í Evrópusambandið?