140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:39]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Mig langar að flytja nokkur örstutt lokaorð og þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram. Sú umræða þarf að verða mun öflugri og háværari. Ég held að það séu öll tilefni til þess vegna þess að eins og hér hefur komið fram má ætla að meiri hluti þingmanna, jafnvel mikill meiri hluti þingmanna vilji ganga í það brýna verk að endurskoða það lagaumhverfi sem varðar uppkaup á landi hérlendis.

Ég tek undir það með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að auðvitað hefði átt að ræða þessar tvær þingsályktunartillögur sem varða uppkaup á landi saman, því að eins og kom fram í máli hans hafa 18 aðrir þingmenn lagt fram tillögu um þessi mál og reyndar var rætt um það alveg frá byrjun og við gengum út frá því að þau yrðu saman á dagskrá. Ég leyfi mér þá að beina því til forseta að tryggja að það mál verði sem allra fyrst á dagskrá þannig að farið verði að vinna að þessum málum.

Eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom inn á þarf þetta að vinnast hratt vegna þess að svona hlutir gerast hratt og margt getur gerst í því fullkomlega ófullnægjandi umhverfi sem við búum við, margt getur gerst og margt getur tapast í því umhverfi. Einmitt sú grunnhugsun er svo alvarleg og svo varasöm og hefur verið allt of ríkjandi hér á landi — eins og margt í þessum efnum og því umhverfi sem við búum við og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom meðal annars ágætlega inn á um erlendan fjárfesti sem getur ekki átt tvær jarðir í eigin heimalandi en getur átt 50 hér — að land sé bara eins hver önnur söluvara, hver annar kókkassi eða gámur af einhverju nammi eða hverri annarri markaðsvöru. Það er þessi grunnhugsun sem verður að breytast yfir línuna. Mörg önnur ríki vísa okkur veginn fram á við í þessum efnum, þau skilja þetta og við verðum að fara að skilja þetta til hlítar. Þess vegna verður að vinna hratt og taka þetta mál til grundvallarendurskoðunar.

Það er að sjálfsögðu viðbúið að ekki séu allir á sömu skoðun og hafi ekki sömu nálgun og geti ekki tekið undir sömu áherslupunkta, það er eðlilegt, en ég held hins vegar að það sé einnig viðbúið að, eins og ég sagði, meiri hluti þingmanna sé uggandi yfir þróuninni og vill að við stöndum okkur betur í þessum efnum. Þess vegna liggur á að vinna þessi mál hratt og vel.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð að svo stöddu, forseti, um þessi mál en þakka fyrir umræðuna sem hér hefur orðið í dag.