140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

málefni innflytjenda.

555. mál
[14:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um málefni innflytjenda. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um markmið fyrir málaflokkinn og síðan stjórnsýsluna, þ.e. hvaða stofnanir og ráð fara með málaflokkinn og þar er fjallað um heildarumgjörðina.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Markmiðinu skal meðal annars ná með því að tryggja að hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera. Einnig skal stuðla að víðtæku samstarfi allra aðila sem koma að málefnum innflytjenda, efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og um samfélag án fordóma, og stuðla að og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda.

Í frumvarpinu er einkum fjallað um hvernig stjórnsýslu í málefnum innflytjenda skuli háttað. Ætlunin er að festa í sessi ákveðið starfsumhverfi sem mótast hefur á grundvelli reynslu undanfarinna ára í kjölfar breyttra samfélagsaðstæðna og með það að leiðarljósi að tryggja framhald þeirra verkefna sem unnið hefur verið að undanfarin ár.

Sem kunnugt er hefur innflytjendum fjölgað ört síðastliðin ár en samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru innflytjendur hér á landi 8.425 árið 2000 en árið 2011 voru þeir orðnir tæplega 25.700.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um starfsemi Fjölmenningarseturs og er gert ráð fyrir að aðsetur þess verði áfram á Ísafirði. Hlutverk þess skal með annars vera að sinna ráðgjafar- og upplýsingahlutverki hvort sem er til innflytjenda, stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja, félaga eða einstaklinga. Fjölmenningarsetrið skal einnig koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna. Einnig skal Fjölmenningarsetrið fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, m.a. með upplýsingaöflun, greiningu og upplýsingamiðlun, og hafa eftirlit með framgangi verkefna í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að lögfest verði ákvæði um innflytjendaráð sem hafi meðal annars það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda, stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar, og stuðla að opnum umræðum um málefni innflytjenda. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um þróunarsjóð innflytjendamála en sjóðurinn hefur það hlutverk að efla rannsóknir og styðja við þróunarverkefni á málefnasviðinu.

Að lokum er í frumvarpinu lagt til að þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti ásamt skýrslu um stöðu og þróun í málaflokknum. Í framkvæmdaáætluninni skal kveða á um verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir einstaklingar geta verið þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna eins og áður hefur verið ítrekað og er meginmarkmið laganna.

Hæstv. forseti. Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram gagnrýni á að verið sé að stofna litla stofnun, þ.e. Fjölmenningarsetur, á sama tíma og verið er að sameina stofnanir. Í umsögninni kemur einnig fram að Fjölmenningarsetur hefur verið starfrækt á Vestfjörðum, á Ísafirði, um árabil og var stofnað vegna þess fjölda innflytjenda sem þar bjó. Það var árið 2001 sem stofnuð var Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Í tengslum við umræðuna um stöðu byggðar á Vestfjörðum og íbúaþróun kynnti ríkisstjórnin á fundi sínum á Vestfjörðum í apríl sl. að festa ætti þessa stofnun í sessi á þessu svæði og nýta þá reynslu sem þar hefur fengist. Þannig er tilgangurinn með þessu frumvarpi meðal annars að festa í sessi þessa stofnun og staðsetningu hennar.

Ljóst er að málefni innflytjenda eru fyrst og fremst verkefni sveitarfélaga. Hverju sveitarfélagi er skylt að sinna þjónustu við sína íbúa, óháð þjóðerni og uppruna, og hlutverki ríkisins, samanber ákvæði þessara laga, verður auðvelt að sinna hvar sem er á landinu og rökrétt framhald að starfið verði áfram á Vestfjörðum og stofnunin verði þar.

Ég legg áherslu á að með þessu frumvarpi er verið að stíga mikilvægt skref til að tryggja bætta stöðu innflytjenda og því leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.