140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

málefni innflytjenda.

555. mál
[14:48]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langaði einfaldlega til að þakka ráðherra fyrir að flytja þetta mál því að málefni innflytjenda eru gríðarlega mikilvæg. Það er áríðandi að við tökum þau föstum tökum. Markmiðið er einmitt að stuðla að samfélagi þar sem allir geti verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.

Ég hef haft takmarkaðan tíma til að kynna mér þetta mál en mér sýnist þó í fljótu bragði, eins og kom líka fram í ræðu hæstv. ráðherra, að hér sé fyrst og fremst mælt fyrir um stjórnsýslu, þ.e. að festa í sessi ákveðið starfsumhverfi sem hefur mótast á undanförnum árum. Það er gott og rétt að festa það í sessi og styrkja stjórnsýslulega.

Það sem mig langaði að spyrja ráðherra um er tvennt, í fyrsta lagi um fjármagn. Það er gott að styrkja og efla stjórnsýsluna, gera hana formfastari og koma með frumvarp til laga sem festir þetta umhverfi í sessi en þá þarf alvörufjármagn inn í málaflokkana. Mig langaði að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig hann metur vonir okkar til þess að meira fjármagn fari í þennan málaflokk yfir höfuð.

Í öðru lagi langar mig, sem er ekki beint tengt þessu heldur málefninu sem slíku, að vita hvernig hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að við getum enn frekar styrkt stöðu og virka þátttöku innflytjenda hérlendis. Það er ekki sama innflytjandi og innflytjandi. Þeir sem eru utan EES-svæðisins búa til dæmis oft í mun erfiðara umhverfi. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér almennt að við getum staðið okkur enn betur í þessum efnum, (Forseti hringir.) t.d. menntunarlega, varðandi brottfall nemenda af erlendum uppruna o.s.frv.? Það er margt áhyggjuefnið í þessum málaflokki og mig langar að heyra (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra fjalla um þetta.