140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

málefni innflytjenda.

555. mál
[14:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framkvæmdaáætlunin sem boðuð er og þarf að vera stöðugt í endurnýjun og verður lögð fyrir ásamt skýrslu á fjögurra ára fresti getur orðið aðhald til að fylgja eftir einstökum málum og líka til að forgangsraða hvar þarf að grípa inn í. Við finnum að við eigum margt ólært í sambandi við það að hafa hér gríðarlega öflugan hóp fólks frá mörgum löndum sem hefur þegar auðgað mannlífið á Íslandi. Við þurfum að nýta okkur þekkingu þess fólks og hæfileika. Til þess þurfum við viðbótarþekkingu. Ef við lítum til dæmis á skólakerfið er það fyrst og fremst spurningin um að afla sér þekkingar og móta viðhorf. Það er ekki peningaleg fyrirstaða í sjálfu sér því að það er enginn eðlismunur á því að vinna með innflytjanda eða öðrum. Það geta verið tungumálaerfiðleikar, talerfiðleikar eða eitthvað slíkt. Við þurfum að sinna hverjum og einum eftir því hvaða þörf hann hefur á hverjum tíma.

Það er þekkt að brottfall hefur verið meira hjá þessum nemendum og það einmitt tengist þessu viðhorfi. Manni bregður líka við fréttir sem bárust meðal annars í þessari viku af viðhorfi til kvenna frá Asíulöndum. Í meistararitgerð í háskólanum og þar er vakin athygli á því hvaða viðhorf Íslendingar hafa til þessara kvenna. Hér er um að ræða hóp sem oft og tíðum hefur gríðarlega öfluga menntun, mikla þekkingu og reynslu frá heimalöndum sínum, fólk sem nýtir ekki þekkingu sína, fær ekki tækifæri til þess og vinnur við þjónustustörf á lægstu launum. Þarna erum við alls ekki að nýta hæfileika fólks eða leyfa því að njóta sín miðað við aðstæður. Við getum miklu betur og það er verkefnið fram undan. Ég treysti á að við tökumst á við það verkefni sem þjóð og höfum af því þann ávinning sem felst í fjölbreyttara mannlífi.