140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að kynna okkur afstöðu sína til skýrslu Hagfræðistofnunar í samræmi við beiðni sem þingflokksformaður framsóknarmanna lagði fram fyrir fáeinum vikum. Hins vegar vekur það nokkra furðu að heyra að hæstv. forsætisráðherra virðist nánast fagna niðurstöðu samantektarinnar, virðist telja þetta fyrst og fremst til þess að réttlæta eigin málflutning undanfarin missiri. Maður veltir fyrir sér, af því að hæstv. forsætisráðherra fór yfir aðdraganda málsins, hvers vegna staðið var að málum með þeim hætti sem gert var. Af hverju var ekki farið í alvörurannsókn á stöðu lánanna og hvernig þau voru færð yfir í nýju bankana, afskriftasvigrúminu? Af hverju fékk Hagfræðistofnun upplýsingar frá ríkisstjórninni og Samtökum fjármálafyrirtækja sem lágu fyrir áður? Ekkert nýtt var hægt að finna út úr þeim upplýsingum, ekkert annað en að koma nýjum orðum að því sem ríkisstjórnin hafði sjálf haldið fram. Enn ríkir því algjör óvissa um þessi mál.

Ef niðurstöður þessarar skýrslu eru hins vegar réttar, að bankarnir hafi ekki svigrúm til að ráðast í frekari leiðréttingu og annað sem þar kemur fram er líka rétt, sýnir það okkur þrennt, þrjú mjög stór atriði: Í fyrsta lagi staðfestir það þá að ríkisstjórnin hafi gert gífurlega alvarleg mistök við stofnun nýju bankanna, að þar hafi lán heimilanna verið færð yfir á mjög óvarfærinn hátt og ekki tekið tillit til þess svigrúms sem hefði átt að vera til staðar. Það kemur raunar fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um stofnun nýju bankanna að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að færa lánin ekki jafnmikið niður og réttlætanlegt hefði verið. Ástæðan hafi verið sú að menn hafi ekki viljað styggja kröfuhafana of mikið. Ríkisstjórnin staðfestir hér með skýrslu Hagfræðistofnunar að gífurlega dýr mistök, hundruða milljarða mistök, hafi verið gerð við stofnun nýju bankanna. Það er líka staðfest að það hafi verið gríðarleg mistök að færa gengisbundnu lánin yfir í nýju bankana. Margir vöruðu við því. Við framsóknarmenn vöruðum ítrekað við því enda kynnu lánin að reynast ólögmæt. Sú varð raunin og nú hefur orðið af því töluvert tjón fyrir bankana sem menn leyfa sér að taka af svigrúminu annars staðar.

Í þriðja lagi staðfestir skýrslan, sé hún rétt, að ríkisstjórnin hefði sett Ísland á hausinn með Icesave-samningunum sem var reynt að keyra í gegn hvað eftir annað. Þar er haldið fram, og skýrsluhöfundar leggja í raun lykkju á leið sína til að halda því fram, að ef ráðist yrði í niðurfærslu og þann 200 milljarða kostnað sem henni fylgdi gæti það sett landið í þrot. Rétt er að hafa í huga að vextir af þeim Icesave-samningum sem ríkisstjórnin reyndi að koma hér í gegn væru þegar orðnir vel yfir 100 milljarðar og það í erlendri mynt sem færi út úr landinu. En þegar við ræðum niðurfærslu lána erum við að tala um peninga sem verða eftir í landinu og veltast hér áfram í hagkerfinu.

Þetta þrennt staðfestir skýrsla forsætisráðherra og Hagfræðistofnunar; gríðarleg mistök við stofnun nýju bankanna við yfirfærslu lánanna þar, verðtryggðu lánanna, mikil mistök við að gengisbundnu lánin skyldu færð og að menn hafi ekki haft efni á þessum Icesave-útgjöldum.

Engu að síður er eitt og annað í skýrslunni sem þarfnast að minnsta kosti frekari útskýringa, meðal annars hvernig menn telja til þann kostnað sem safnast hafði saman. Hæstv. forsætisráðherra og raunar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ítreka það svo enn og aftur, að svo og svo margir milljarðar, 160 milljarðar held ég að hæstv. forsætisráðherra hafi talað um, 200 milljarðar samkvæmt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, færu í það að færa niður lán. Þau þakka sér þann árangur þegar ljóst er að megnið af þessu er niðurfærsla vegna hinna ólögmætu gengisbundnu lána. Bróðurparturinn af því sem hæstv. ráðherrar státa sig af að hafa gert fyrir heimilin í landinu er til kominn vegna dóma Hæstaréttar, dóma sem þessi ríkisstjórn fagnaði ekki og var raunar mikið áhyggjuefni. Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lýsti þessu sem sérstöku áhyggjuefni og taldi kostnaðinn jafnvel meiri en menn gætu með góðu móti mætt. Hæstv. núverandi efnahagsráðherra leggur hins vegar áherslu á það að bankarnir geti með góðu móti fjármagnað þetta allt saman og allt í einu er orðið til svigrúm sem áður var ekkert, eftir að síðasti dómurinn féll. Þá er því haldið fram að það sé allt annar hlutur, allt aðrir peningar sem felist í hagnaði bankanna en í afskriftasvigrúminu. Það er mjög undarleg röksemdafærsla því að þá er ósvarað spurningunni: Hvernig varð þessi hagnaður til? Varð hann ekki til með því að færa upp matið á lánasöfnunum? Enn er mörgum spurningum ósvarað um skuldastöðu heimilanna.

Enn hefur ríkisstjórnin gert sáralítið til að bregðast við þessum umfangsmikla vanda og virðist raunar helst þakka sér það sem varð niðurstaða dómstóla.