140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÞBack): Þögn í salnum.)

Í kjölfar nýgengins dóms í Hæstarétti er varðar vexti af gengistryggðum lánum hefur bilið á milli lántakenda sem annars vegar tóku gengistryggð lán og hins vegar þeirra sem tóku verðtryggð lán með vísitölutengingu breikkað. Krafan um að komið verði með einhverjum hætti til móts við síðarnefnda hópinn hefur orðið háværari í kjölfar dómsins sem í ljósi aðstæðna er skiljanleg krafa og mjög málefnaleg. Almennt var talið varfærnara að taka hefðbundin vísitölutengd lán til húsnæðiskaupa fremur en lán sem tengd voru öðrum gjaldmiðlum, lán sem síðar reyndust ólögleg.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er bent á að þegar hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til að lina erfiðleika skuldara og er farið yfir aðgerðirnar og lagt mat á kostnað við þær. Kostnaður við niðurskriftir, svo sem vegna 110%-leiðarinnar, lendir á lánastofnunum, þar með talið ríkinu vegna afskrifta á lánasöfnum Íbúðalánasjóðs og Landsbankans.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er lagt mat á hve mikið var fellt niður af lánunum þegar þau voru færð yfir í nýju bankana og hversu mikið af þeirri niðurfellingu væri þegar komið til lánþega. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að munur á kröfuvirði lánasafna bankanna og því verði sem bankarnir greiddu fyrir lánasöfnin sé um 95 milljarðar kr. á verðlagi í október 2008. Munurinn skýrist annars vegar af líklegum endurheimtum og hins vegar af markaðsvöxtum þegar lánin voru færð í nýju bankana.

Í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja frá því í október 2011 kemur fram að íbúðalán hafi verið færð niður um 144 milljarða kr. vegna 110%-leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurreiknings gengisbundinna lána. Þessi umræða þarf að vera yfirveguð og laus við lýðskrum og yfirboð. Það er auðvelt að vinna keppni um yfirboð, en það hefur hins vegar reynst þjóðinni dýrt að láta hæstbjóðendum það eftir að stýra landinu.

Í þjóðhagsáætlun 2012 kemur fram að í lok ágústmánaðar 2011 hafi verið búið að færa lán heimilanna niður um 164 milljarða, þar af var 131 milljarður kr. vegna endurútreiknings gengistryggðra lána sem skiptist á milli íbúðalána, samtals 92 milljarðar, og bifreiðaviðskipta, 38 milljarðar. Við þetta hefur nú bæst að í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar munu þeir sem á annað borð réðu við greiðslubyrði gengistryggðra lána eftir hrun fá endurgreidda vextina að hluta.

Það er ástæða til að rifja upp hverjar afleiðingar yfirboða geta og hafa verið. Eru menn búnir að gleyma yfirboðum Framsóknarflokksins í húsnæðismálum fyrir alþingiskosningarnar 2003? Þá voru líklega gefin dýrustu loforð Íslandssögunnar sem þjóðin fékk síðar í bakið með margvíslegum hætti. (Gripið fram í: Já, já.) Rannsóknarnefnd Alþingis fjallar um efndir þessara loforða sem hagstjórnarmistök. Sjálfstæðisflokkurinn tók vísvitandi þátt í því og leit á þann kostnað sem fylgja mundi í kjölfarið sem ásættanlegan fórnarkostnað við að halda völdum. (EyH: Enginn vilji til samstarfs.) Eru menn þeirrar skoðunar að núna sé enn á ný runninn upp tími yfirboða? Það verða þeir að svara fyrir sem stunda slík yfirboð. Við skulum stíga varlega til jarðar í þessum málum, sýna varúð og umfram allt reyna að nota þá fjármuni vel sem varið verður til húsnæðismála.

Vaxtabætur eru dæmi um leið þar sem fjármunir nýtast og renna til heimila með mikla skuldabyrðin sem þau ráða ekki við vegna lítilla tekna. Greiddir voru ríflega 18 milljarðar í vaxtabætur í fyrra og annað eins verður greitt á þessu ári. Vaxtabætur eru jafnframt jöfnunartæki í þeim skilningi að þau heimili sem hafa háar tekjur og eiga að ráða við greiðslubyrði fái síður bætur en þau sem eru verr stödd með tilliti til tekna eða skulda.

Ég hef miklar áhyggjur af hópi lágtekjufólks sem var í basli fyrir hrun og er áfram illa sett. Sá hópur vill oft gleymast í þessari umræðu. Ég tel að við eigum að horfa sérstaklega til þess hóps þegar við reynum að mæta þeim kröfum að vera sanngjörn (Forseti hringir.) og finna leiðir til að mæta fólki í ólíkri skuldastöðu.