140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:15]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu greinargerð um afföll íbúðalána við stofnun nýju bankanna og kostnað við niðurfærslu lána sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið. Í greinargerðinni eru hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila metnar efnahagslega og efnislega að nokkru leyti. Greinargerðin er um margt góð og fræðandi. Niðurstaða greinargerðarinnar er sú að svigrúm sem skapaðist við færslu húsnæðislána frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju sé að fullu nýtt og rúmlega það, því er lítið rými fyrir hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna.

Fram kemur að svigrúmið hafi veri 95 milljarðar en fjármálastofnanir hafi nú þegar notað 135 milljarða til aðstoðar skuldsettum heimilum. Í þeirri tölu eru afföll ólögmætra gengistryggðra lána um 24 milljarðar og þeir milljarðar taldir að fullu með í svigrúmi bankanna til niðurfærslu. Það er umhugsunarvert að ólögmætir lánasamningar séu taldir með í þessu svigrúmi og mjög umdeilanlegt að mínu mati.

Það hefur einnig komið fram í umræðu upp á síðkastið að fjárhagsleg staða bankanna er sterk. Þau ummæli hafa komið fram í tengslum við nýjan gengisdóm frá Hæstarétti. Það sýna einnig nýlegar aðgerðir bankanna þar sem feitir tékkar voru sendir til viðskiptavina. Það sýnir að fjármálafyrirtækin standa styrkum fótum, og það er vel. Hið opinbera er því miður ekki í eins góðum málum, því þarf það kerfi að fara varlega, en það að fara varlega þýðir samt ekki endilega að maður standi kyrr.

Mér finnst vert að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir baráttu þeirra fyrir heimilisöryggi landsmanna. Þó að ég sé ekki alltaf sammála nálgun þeirra að verkefninu er barátta þeirra svo sannarlega þörf.

Ríkisstjórnin hefur gert margt mjög gott til að vinna að þessu sama markmiði. Mig langar sérstaklega til að halda á lofti vaxtabótakerfinu sem ég held því miður að gleymist allt of oft. Í það hafa verið settir heilmiklir fjármunir og það virkar mjög vel, en einhvern veginn gleymist það oft í umræðunni.

Mig langar einnig til að halda því á lofti að heimilisöryggi allra fjölskyldna er eitt mesta og stærsta velferðarmál hverrar þjóðar, það skiptir börn ekki hvað síst máli. Og það að heimili fólks séu ekki svo skuldsett að það ógni öryggi er virkilega stórt og mikið velferðarmál. Því megum við alls ekki gleyma.

Staðan í þjóðfélagi okkar er því miður alvarleg. Það eru rétt rúmlega 26 þús. manns á vanskilaskrá. Flestir þeirra eru einstæðir foreldrar og það er mjög alvarlegt fyrir barnafjölskyldur.

Ljóst er að við þurfum að gæta að því að jafnræði verði á milli skuldahópa í landinu. Hópurinn sem er með lánsveð er til dæmis einn þeirra hópa sem þarf að skoða sérstaklega. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að það verði gert. Ég held við verðum líka að horfast í augu við það, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að þann hóp sem er með verðtryggð íbúðalán munum við þurfa að skoða sérstaklega í ljósi þess að of mikill munur verður á milli þeirra sem hafa gengistryggð lán og hinna sem hafa verðtryggð lán. Það þarf að skoða. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa skynsemi að leiðarljósi í því máli þannig að velferðar- og menntakerfi okkar kollsteypist ekki og við þurfum að vinna saman á lausnamiðaðan hátt að málinu.

Framtíðarlausnin er að mínu mati að sjálfsögðu öflug og góð peningastefna sem vinnur gegn verðbólgu og kannski ekki síst að við verðum hluti af stöðugu umhverfi stærri gjaldmiðils og stærra markaðssvæðis í góðri samvinnu Evrópuríkja. Við þekkjum það mörg að þar er húsnæðismarkaður og húsnæðisöryggi allt, allt annað. Ég verð að viðurkenna að þannig veruleika langar mig að búa komandi kynslóðum.