140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Íslensk heimili hafa alltaf verið óhemju skuldsett, miklum mun skuldsettari en í nágrannaríkjunum. Húsnæðisstefnan hér hefur verið allt önnur. Eigið húsnæði hefur verið nánast dagskipunin sem er ólíkt nágrannalöndunum. Nýjar tölur um vanskil og skuldir heimilanna nú eftir hrunið eru því mjög athyglisverðar þegar fram kemur að skuldsetningin í það heila sé sú sama og á því herrans ári 2007, eða um 109% af landsframleiðslu.

Einnig er athyglisvert að í umræðunni núna er mun meiri áhersla lögð á að 26 þús. manns, eða 9% fjárráða einstaklinga, séu í alvarlegum vanskilum en að 91% séu það ekki, eins og Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmaður til margra ára, vakti athygli á í blaðagrein í síðustu viku í tilefni af fréttatilkynningu Creditinfo um skuldir heimilanna. Við tölum nefnilega í kross. Ýmist er talað um að engar raunverulegar niðurfærslur hafi orðið á skuldum heimila eða að við eigum heimsmet í niðurfærslu skulda heimila.

Þess vegna, frú forseti, er sú samvinna mjög mikilvæg sem varð aðdragandi að þessari skýrslu. Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir því, kröfðust almennra og réttlátra leiðréttinga á skuldum og afnáms verðtryggingar síðastliðið haust með 35 þús. undirskriftum. Sú greinargerð sem hér er til umræðu er unnin í samvinnu stjórnvalda og samtakanna. Þess vegna finnst mér mjög miður að menn skuli tala um, eins og gert hefur verið, að þetta sé pöntuð skýrsla, verið sé að blekkja, vegna þess að skýrslan er algerlega unnin á þeim forsendum sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu upp (Forseti hringir.) með þeim fjórum mismunandi leiðum sem samtökin komu með.

Mikilvægt er eins og bent hefur verið á að við förum að finna okkur fastan punkt (Forseti hringir.) til að standa á í þessari umræðu en ekki sífellt að tala í kross. Þessi skýrsla er tilraun til þess. (Gripið fram í: Hvernig væri að …)