140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Umræðan hér í dag hefur verið ágæt. Fróðlegt var að hlusta á forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, fjalla um þær aðgerðir sem búið væri að grípa til fyrir skuldsett heimili.

Niðurstaðan er sú eftir gengislánadóma undanfarið að ríkisstjórnin hefur ekki gripið til nokkurra ráðstafana fyrir skuldsett heimili. Skuldsett heimili hafa þurft að sækja þetta allt til dómstóla. Ljóst er að í ljósi dóma vegna gengistryggðu lánanna, hvernig stærstur hluti af afskriftunum hefur verið vegna þeirra, þá var það alveg klárt þegar nýju bankarnir voru stofnaðir að skynsamlegast hefði verið að ráðast í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna. Það var svigrúm til þess. Það var svigrúm í bankakerfinu en ríkisstjórnin kaus að láta það svigrúm renna til kröfuhafa fremur en til heimila í landinu. Ríkisstjórnin kaus að láta þetta ekki renna til heimilanna í landinu.

Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og gagnrýnir stjórnarandstöðuna sem hefur stutt öll mál sem hafa komið varðandi aðgerðir til handa skuldsettum heimilum. Það hefur allt verið stutt. Hins vegar hefur ekki verið gengið nægilega langt.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum Hreyfingarinnar sem hafa fjallað um skýrslu Hagfræðistofnunar. En það er annað sem er svolítið merkilegt. Þegar skýrslan var kynnt fyrst sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar að hún sýndi að ekkert svigrúm væri til frekari niðurfellingar, bankakerfið þyldi ekki frekari niðurfellingar. Tveimur, þremur vikum seinna fellur dómur í Hæstarétti og þá koma sömu forustumenn ríkisstjórnarinnar og segja: Þetta hefur engin áhrif á bankakerfið þótt á þá falli tugir milljarða, bankakerfið stendur styrkum fótum. Þegar hæstv. forsætisráðherra tjáir sig um þessi mál áttar maður sig ekki á því í hvaða heimi hún lifir.

Aðdragandinn að skýrslunni er eins og réttilega hefur verið bent á undirskriftasöfnun Hagsmunasamtaka heimilanna og skýrslan unnin í framhaldi af því. En niðurstaðan er sú hjá hæstv. ríkisstjórn að engar lausnir eru til til að bregðast við 37 þús. undirskriftum. Það eru engar lausnir og ekki vilji til þess að koma fram með lausnir.

Vandinn er að sá flokkur sem hefur talið sig vera eða hefur fjallað um að hann sé algjörlega flokkurinn sem standi fyrir utan öll hagsmunaöfl í landinu stígur aldrei neitt skref nema fjármálafyrirtækin viðurkenni það. Hvað sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar eftir gengislánadómana? Nú þyrfti ríkisstjórnin og fjármálafyrirtækin að setjast niður og sjá hvað væri hægt að gera fyrir skuldsett heimili.

Ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem eitt sinn stóð með fólkinu í landinu, sem eitt sinn gagnrýndi það að þingmenn, ráðherrar og aðrir væru handbendi fjármálafyrirtækja komi hér og leiði þjóðina og almenning en sé ekki eilíft í því að leiða fjármálafyrirtækin í landinu.

Það verður að grípa til raunhæfra aðgerða. Fjöldinn allur af málum hefur verið lagður fram og fjöldinn allur af frumvörpum. Það sem þarf núna (Forseti hringir.) er að menn snúi bökum saman með fjölskyldunum í landinu, með heimilunum í landinu, og láti ekki þessi meintu hagsmunaöfl (Forseti hringir.) stýra sér í einu og öllu eins og hent hefur hæstv. forsætisráðherra allt of oft. (Forseti hringir.)