140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt athyglisvert sem hefur komið fram við umræðuna, m.a. það sem fram kom hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þar sem hann sagði að gerð hafi verið mistök þegar lánin voru færð úr gömlu bönkunum yfir í nýju. Þá veltir maður fyrir sér hvað hv. þingmaður er að fara vegna þess að yfirfærslan var unnin í samræmi við neyðarlögin sem sjálfstæðismenn í samvinnu við Samfylkinguna stóðu að, og eignirnar voru færðar yfir samkvæmt lágu mati Deloitte og þannig gengið eins langt og mögulegt var talið á þeim tíma til að tryggja hagsmuni hinna nýju banka á kostnað kröfuhafanna. Þess vegna er furðulegt að sjálfstæðismenn leyfi sér að gagnrýna hvernig staðið var að þeirri yfirfærslu.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að mér finnst það afar ósmekklegt, t.d. hjá þingmönnum Hreyfingarinnar, að vera með aðdróttanir eins og þeir voru með í garð Hagfræðistofnunar Háskólans og reyndar líka ríkisstjórnarinnar, en látum það vera, og halda því fram fullum fetum að ríkisstjórnin stóli á að fá þær niðurstöður sem hún vill hjá Hagfræðistofnun Háskólans. Það er mjög ósmekklegt að setja þetta fram og ræða það hér með þeim hætti, enda stendur ekki steinn yfir steini í þessu. Ég fór yfir það í inngangi í ræðu minni hvernig að þessu var staðið eins faglega og hægt var og með aðstoð þeirra sem þurfa að koma að þessu máli, t.d. Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Mér finnst það verst að eftir standi að menn eru enn að draga í efa það svigrúm sem er til afskrifta í bönkunum. Meðan menn draga það enn í efa komast þeir ekkert úr sporunum og ná ekki samstöðu um hvað raunverulega er hægt að gera án þess að vera að draga einhverjar kanínur upp úr hatti, eitthvað sem er óframkvæmanlegt og kalla t.d. eftir peningaprentun. Það finnst mér alveg óboðlegur málflutningur.

Stjórnarliðar eru fullkomlega til í að setjast yfir það með stjórnarandstöðunni hvað hægt væri að gera ef menn koma sér niður á raunverulegar aðgerðir sem ekki bitna á skattgreiðendum eða lífeyrisþegum. Þetta kom fram í máli mínu áðan.

Mér finnst ekki mikill áhugi í þessum sal fyrir skuldum heimila eins og fram kom hjá mörgum áðan í ræðustól, vegna þess að við tölum yfir tómum sal, einum framsóknarmanni, einum vinstri grænum, einum samfylkingarmanni og einum í hliðarherbergi. Það er nú allt og sumt.

Síðan er talað um það, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði, að vanskilin séu mjög mikil. Þau eru allt of mikil. En við skulum líka átta okkur á því að þau hafa lækkað verulega. Um mitt ár 2010 voru þau 34%, þ.e. hjá einstaklingum þar sem lán voru í verulegum vanskilum en eru komin niður í 20% núna samkvæmt nýjustu tölum frá Fjármálaeftirlitinu. Athugum það þegar menn tala um að 26 þús. manns séu í vandræðum en hafi verið 16 þús., þá gengum við í gegnum það að gengið hrundi um 40%, verðbólgan var 18%, kaupmáttur hrundi, lánin hækkuðu verulega. Auðvitað kemur það fram í auknum vanskilum en við erum að ná árangri. Þessar tölur sýna það ásamt því sem hagfræðingurinn danski sagði að Ísland (Gripið fram í: Heimsmeistari) er heimsmeistari, já, heimsmeistari — ég skal endurtaka það eins oft og þurfa þykir fyrir hv. þm. (Gripið fram í.) Vigdísi Hauksdóttur — er heimsmeistari í að færa niður skuldir heimilanna. Og við ætlum að gera (Gripið fram í.) enn betur og ég fór yfir það í máli mínu áðan. Hættum öllum þessum hókus-pókus aðferðum og að hér sé hægt að prenta peninga og skapa með því væntingar úti í samfélagi sem við vitum hér inni að ekki er hægt að standa við. (Forseti hringir.)