140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ESB og fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi.

[15:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt, við lögðum á það áherslu strax frá byrjun að æskilegt væri að haga þessu þannig að hinir þyngri eða viðameiri kaflar kæmust sem fyrst til eiginlegra viðræðna, helst að strax eða að minnsta kosti í annarri umferð opnuðust fyrstu kaflarnir af því taginu. Nú vita allir að í einstökum tilvikum er þetta nánast bara eins og að opna bók og loka henni aftur þegar um er að ræða hreina EES-kafla þar sem Ísland hefur þegar innleitt alla löggjöfina en svo koma aðrir sem eru blandaðir eða enn aðrir sem nánast standa þar alveg utan við af því að þeir hlutir hafa staðið utan EES-samningsins. Þar er sjávarútvegurinn mönnum kannski einna efst í huga. Ég tel að vísu að nokkrir mikilvægir grundvallarhagsmunir í sjávarútvegsmálunum skipti allir máli og hef ekki endilega vigtað þá saman en ég mundi segja að númer eitt væri fiskveiðilögsagan sjálf og spurningin um sjálfstæði eða sjálfsforræði innan hennar og hvernig með mál er farið þar.

Í öðru lagi eru deilistofnar og forsvar í samningamálum og öðru slíku. Að sjálfsögðu koma svo fjárfestingartakmarkanirnar líka við sögu sem við höfum haldið okkur við og hyggjumst ekki gefa eftir. Það held ég að sé samdóma álit að við sjáum það ekki fyrir okkur að við opnum það upp.

Ég er enn sömu skoðunar. Það er mjög mikilvægt að komast í alvöruviðræður og láta á þetta reyna þannig að við vitum í fyrsta lagi hvort einhver opnunarskilyrði séu í þessum köflum eða hvort einhver lokunarskilyrði yrðu. Næst hreinlega enginn árangur í hinum eiginlegu viðræðum þannig að upp úr því slitni? Er ekki um neitt að semja vegna þess að það er svo langt á milli aðila? Ég get staðfest við hv. þingmann að afstaða mín í þessum efnum er nákvæmlega sú sama og var sumarið 2009 og í nýliðinni ferð minni til Brussel lagði ég enn áherslu á það að að minnsta kosti ég (Forseti hringir.) hefði þá afstöðu að ég vildi komast í þessar viðræður sem fyrst.