140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

skuldamál heimilanna.

[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra Oddnýju Harðardóttur hvort hún sé sammála þeim ummælum Helga Hjörvars, hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, að eftir dóma Hæstaréttar sé óhjákvæmilegt að fara í almennar aðgerðir hjá að minnsta kosti þeim sem tóku lán 2004–2008. Þá ræðir hv. þm. Helgi Hjörvar um að lífeyrissjóðirnir borgi og hækki jafnvel eftirlaunaaldurinn eitthvað eða að ríkið nái til baka 20 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir fengu frá seðlabanka Lúxemborgar. Er hæstv. ráðherra sammála því? Telur hæstv. ráðherra að lífeyrissjóðirnir hafi borð fyrir báru núna eftir hrunið, í umhverfi lækkandi ávöxtunar, til að taka á sig slíkar skuldbindingar? Mun þetta ekki koma niður á getu þeirra til að greiða verðtryggðan lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega?

Auk þess er hv. þingmaður, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, með sömu tillögu og Sjálfstæðisflokkurinn um að ná í eign ríkissjóðs hjá séreignarsjóðunum en hann ætlar að nota peninginn til að lækka skuldir til langframa en Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að fella niður alla skatta vinstri stjórnarinnar í að minnsta kostir eitt eða tvö ár.

Þá kemur næsta spurning: Ef hæstv. fjármálaráðherra ætti þessa rúmlega 100 milljarða í handraðanum, hvort teldi hann betra að lækka skuldir sumra um segjum 15%, sem þýðir að þeir greiða næstu 30–40 árin 15% minna þannig að fjármagnið kemur inn á 20–30 árum, eða að lækka skatta nú þegar sem kemur beint í æð og kemur efnahagslífinu aftur í gang?

Er hæstv. ráðherra ekki sammála hv. þingmanni sem komst að þeirri niðurstöðu að maður notar ekki sama peninginn tvisvar?