140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það vakti nokkra athygli mína að haft er eftir sendiherra Íslands í Brussel að hann hafi boðið Evrópusambandinu kennslu í sjávarútvegsmálum, væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Ég get verið sammála sendiherranum um að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum byggt upp hér er bæði skynsamlegra og árangursríkara en það kerfi sem er til staðar innan Evrópusambandsins.

Hins vegar fór ég að velta fyrir mér hvort sendiherrann hefði ekki heyrt af áformum ríkisstjórnarinnar um að gerbreyta þessu sjávarútvegskerfi. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti útskýrt hvort það standi til af hálfu ríkisstjórnar Íslands að kenna Evrópusambandinu fiskveiðistjórn samkvæmt því kerfi sem við höfum og sem við þekkjum eða hvort það á að fara út í kennslu varðandi það frumvarp eða það módel sem núna er sagt vera á teikniborðinu hjá hæstv. ráðherra.