140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

[15:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, sendiherra okkar er velviljaður maður og hjálpsamur og býður fram aðstoð þar sem hann telur hennar þörf. Ég held að flestir séu sammála því að sameiginlega fiskveiðistefnan sem núna sætir endurskoðun hafi ekki reynst vel, hafi verið bæði dýr og óskilvirk. Það er auðvitað himinn og haf á milli margra grundvallaráherslna sem við leggjum, t.d. þess að kasta ekki fiski og þess sem viðgengst í Evrópusambandinu þar sem mönnum er slíkt skylt. Það hefur með ærnum tilkostnaði reynt að minnka afköst flotans, eytt í það milljörðum evra með takmörkuðum árangri eins og kunnugt er og ræður enn lítið við ofveiði á ákveðnum stofnum o.s.frv. Ég held að það sé almennt viðhorf að sjávarútvegsstefna þess og fiskveiðistjórn þarfnist endurskoðunar.

Ég hef ekki upplýsingar um það frá sendiherranum hvernig hann hafði hugsað sér að standa að þessari ráðgjöf sérstaklega. Ísland hefur auðvitað fylgst með þessari vinnu, m.a. í gegnum fulltrúa sína í Brussel, enda eðlilegt. Ég held að það gæti haft gagn af því að skoða ýmislegt í okkar fiskveiðistjórnarkerfi eins og það er, ég tala nú ekki um ef okkur tekst vel til við að betrumbæta það og sníða af því ýmsa ágalla sem hafa verið umdeildir og fylgt kerfinu lengi. Vonandi gætum við þá veitt Evrópusambandinu í framhaldinu ráðgjöf á grundvelli enn þá betra fiskveiðistjórnarkerfis sem við værum búnir að lagfæra ef okkur vinnst vel í þeim efnum á næstu mánuðum. (JónG: Bílslys?)